Um FÍF
Félag íslenskra fornleifafræðinga (FÍF) var stofnað 14. ágúst 1992. Félagið er fagfélag og skilyrði fyrir inngöngu er að hafa lokið háskólaprófi með fornleifafræði sem aðalgrein.
Hafa samband
Hægt er að hafa samband við FÍF hér: Tölvupóstfang FÍF

Menningarminjadagur Evrópu

Menningarminjadagur Evrópu

sunnudaginn 5. september 2010

Dagskrá

Þema dagsins að þessu sinni er sjávar- og strandminjar. Eftirfarandi viðburðir verða í boði Fornleifaverndar ríkisins þann dag:

Suðurland

Uggi Ævarsson minjavörður Suðurlands leiðir gesti um Reynisfjöru og nágrenni með dagskrá sem nefnist Um að ýta og lenda í brimsjó fyrir söndum. Þar mun Uggi fjalla um útræði í Reynisfjöru auk þess sem skoðaður verður Bæjarhellir (einnig nefndur Baðstofuhellir) en hann tengist sögu síra Jóns Steingrímssonar eldklerks. Mæting er við bílastæðið við Reynisfjöru kl. 14:00.

Reykjanes

Starfsmenn Fornleifaverndar þeir Kristinn Magnússon og Gunnar Bollason munu leiðsegja gestum um hinar fornu verbúðir á Selatöngum, austan Grindavíkur. Mæting er við bílastæðið kl. 13:30.

Vesturland

Magnús A. Sigurðsson minjavörður Vesturlands heldur kl. 14:00 fyrirlestur í Ráðhúsinu í Stykkishólmi sem hann nefnir Neðansjávarfornleifafræði og strandminjar. Hvað má búast við að finna við Ísland?

Vestfirðir

Dr. Ragnar Edvardsson minjavörður Vestfjarða kynnir gestum Strákatanga við Hveravík í Steingrímsfirði (rétt sunnan við Drangsnes). Á Strákatanga var á 17. öld hvalveiðistöð Baska en þar hafa einnig fundist fjögur kuml frá landnámsöld. Ragnar verður á staðnum frá klukkan 11:00 og fram eftir degi.

Norðurland vestra

Þór Hjaltalín minjavörður Norðurlands vestra kynnir gamla verslunarstaðinn Grafarós, sunnan við Hofsós. Mæting er við upplýsingaskiltið um Grafarós kl. 14:00.

Norðurland eystra

Sigurður Bergsteinsson minjavörður Norðurlands eystra mun leiða gesti um hinn forna verslunarstað Gásir við Eyjafjörð kl. 14:00.